Stelpur fermast – strákar ekki?

Í póstkassann okkar hrúgast nú (aukalega við allt annað) bæklingar og tilboð er varða fermingar.

Það kemur svosem ekki á óvart þar sem frumburðurinn er ákkúrat á fermingaraldrinum núna.

Í fyrstu hélt ég að markaðsdeildir blómsala og bakara væru svona sniðugar – senda „stelpulegar“ auglýsingar til okkar sem eigum stelpu og svo e-ð „strákalegt“ til þeirra sem eiga stráka… hvað veit maður (annað eins hefur nú verið gert)!

Við nánari athugun komst ég þó að því að svo er ekki og þegar heilsíðuauglýsingin hér að ofan birtist í einu dagblaðanna þá fór ég að pæla: eru það bara stelpur sem fermast?

Myndmál, fyrirsætur og nöfn á kökum, kertum og öðrum „fermingardóti“ virðast gefa það til kynna.

E .t.v. þykir þessi kenning mín fáránleg og ég get sagt með sanni að hún er einungis byggð á tilfinningunni einni saman… en ég get s.s. ekki látið það vera að hugsa um brúðkaup (með áherslu á það ljóta orð) og allt havaríið í kringum það stúss út frá þessu myndmáli sem birtist okkur hér?

Rétt eins og myndmál brúðkaups-auglýsinga og já allur sá iðnaður beinist nær eingöngu að kvenfólki er athyglisvert að sjá hvernig svipað myndmál birtist í auglýsingum um fermingarundirbúningin og umhverfist í kringum stelpurnar eingöngu.

Má því ætla að fermingar séu e-s konar fyrsta þrep hinnar ungu konu (sem um leið er ímyndin um hina hreinu mey) upp að altarinu?

Stúlkur fá allavegna þau skilaboð í gegnum fjölmiðla (og þá aðallega í sjónvarpsþáttum, kvikmyndum og barnaefni) að hamingjuna (og þar með lífsmarkmið) sé að finna í hinni einu sönnu ást/í hjónabandinu – hjá prinsinum á hvíta hestinum.

Því þrátt fyrir dugnað, gott vit og elju þá viljum við víst allar næla okkur  í draumaprinsinn??? eða hvað?

Í framhaldi af þessu vil ég benda á áhugaverða ritgerð Maríönnu Clöru Lúthersdóttur, „Spegill, spegill, herm þú mér… Birtingarmyndir kvenna í hreyfimyndum Disney og Pixar“, hér birti ég brot úr kaflanum „Beðið eftir prinsinum“ (bls. 50):
„Þótt skortur á mæðrum sé áberandi hjá Disney er þó enginn skortur á móðurlegum
tilfinningum. Einn helsti kostur kvenna í myndunum er einmitt umhyggjusemi og
fórnfýsi – enda er það hreinlega virkni margra kvenpersónanna að styðja og hjálpa
manninum. Jafnvel nýlegri kvenhetjur sem á yfirborðinu virðast vera mun sjálfstæðari
og sterkari en forverar þeirra verða á endanum að beygja sig undir þessar sömu reglur.
Sem dæmi má nefna Fríðu í Fríðu og dýrinu sem virðist upphaflega vera sterk og
óvenjuleg kvenhetja (hún les bækur, hún vill ekki giftast vonbiðli sínum Gaston) en
sættir sig svo við að láta loka sig inni í kastala og leggur að lokum allt í sölurnar til að
kenna dýrinu að verða að manni áður en hún giftist honum. Jafnvel mætti kalla
þetta Stokkhólmsheilkenni á háu stigi. Stærstu kostir hennar felast þegar upp er
staðið í því að fyrst fórnar hún sér fyrir föður sinn og svo fyrir (verðandi) eiginmann
sinn.“

Ég hvet ykkur til að lesa alla ritgerðina – hún er mjög svo áhugaverð.

Góðar stundir.

Konur og loðin dýr

Nú væri Ole Munk prófessor ánægður með forsíðuefni Fréttablaðsins í dag!

góðar stundir

úps – hvað varð um eldmóðinn??

Mynd/auglýsing sem birtistí "Thrilling Wonder Stories", 1945

Já  –  og ég sem lofaði sjálfri mér, fallega og örugglega, að halda áfram hér á Mylsnum að koma með dæmi úr hversdagsleikanum ÞRÁTT fyrir að vera búin að skila inn R I T G E R Ð I N N I… þá hefur e-ð aaaðeins dregið úr eldmóðinum hér (en þó bara hér en ekki í kjötheimi)  😉

Ég rakst á þessa auglýsingu í fréttablaðinu í dag:

og var einmitt nýbúin að horfa á þetta!

og lesa þetta á Knúsinu!

Af því að ég er svona „týpísk vog“ þá vil ég stundum velta hlutunum fyrir mér frá ýmsum sjónarhornum (þetta er frekar neikvæður eiginleiki og lýsir sér s.s. yfirleitt þannig að ég veit ekki í hvorn fótinn ég á að stíga…. með tíð og tíma hef ég þó lært að fara eftir eigin sannfæringu og hlusta á innsæið).

Allavegna…

Þá mætti e.t.v. segja að rökin með þessari myndbirtingu sé: „hún er að skemmta sér – henni finnst gaman“,“hún á engin föt – þess vegna vefur hún sig inn í plastborða (þar til hún kemst á útsöluna)“? s.s. skilaboð myndmálsins er:

  • hún er frumleg (finnur upp á því að hylja nekt sína þrátt fyrir fataleysið)
  • hún er hress (líkamsstaðan gæti verið að gefa í skyn e-s konar dans).

Ég sé þó þetta:

  • hún er að öskra (er pirruð, reið, hrædd?)
  • líkamsstaða og tjáning er heftandi (hún getur ekki hreyft sig í þessum plastborða)

Auglýsingin hér að framan vísar í „bondage“ (vantar íslenskt orð yfir þetta) en það er orðið algengt myndmál í auglýsingum, sjónvarpsþáttum og kvikmyndum – að birta konur (og aðeins konur) bundnar, undirgefnar, einar í ógnandi aðstæðum, grátandi, hræddar og öskrandi (af sárskauka eða hræðslu).

Mér dettur líka í hug hér að rifja upp þennan eldri pistil hér á Mylsnum – en þar fjalla ég m.a. um auglýsingu Versage fyrir H&M – hönnunarlínuna 2011.

Góðar stundir

Af hverju er þetta ekki fyndið?

Eða þetta?

Er þetta minna fyndið?

eða þetta? kannski ekkert fyndið – bara eðlilegt?

Ég skal deila með ykkur hvers vegna ég er gjörsamlega húmorssnauð þegar kemur að myndbirtingu kvenna í auglýsingum og þá sérstaklega hvað varðar ímynd húsmóðurinnar.

Í auglýsingum og öðru sjónrænu efni í fjölmiðlum er yfirleitt lögð áhersla á að sýna konuna í tengslum við einkalífið (e. the private sphere) en karlmanninn í tengslum við hinn opinbera vettvang (e.the public sphere). E.t.v. þótti þetta sjálfsagður hlutur þegar konur voru aðallega heimavinnandi og karlmenn útivinnandi (!). Í dag er árið 2012, karlar eru heimavinnandi og konur líka og allir útivinnandi eða atvinnulausir eða einstæðir eða….s.s.. allskonar í gangi, en ennþá birtast bara konur í t.d. auglýsingum að þrífa, að elda, að rækta, að passa börn og eru auðvitað brosandi kynþokkafullar á meðan.

Ég hefði e.t.v. meiri húmor fyrir svona myndefni (sem umlykur umhverfi mitt frá degi til dags) ef ég upplifði e-s konar andstæður í raunveruleikanum – auglýsingar eru jú aðeins heimur ímynda þar sem dregin er upp glansmynd eða fjarstæðukenndar fantasíur til að vekja athygli á vöru/þjónustu – eða hvað? En hér brestur hláturinn og verður að þöglum kökki í hálsinum á mér (já ég veit – ég er að jafna mig eftir ritgerðarskrifin).

Hér eru nokkur handahófskennd dæmi úr hversdagsleika mínum sem sýna að við erum ekki alveg komin ,þangað‘:

  • Í leikskóla yngsta sonar okkar var ekki ætlast til að ég (móðirin) byði mig fram til foreldraráðs og faðirinn byði sig fram til foreldrafélags – af hverju ekki? Jú foreldraráð fjallar um alvarlegri málefni sem varðar bæjaryfirvöld en foreldrafélagið skipuleggur kökuskreytingar og jólaföndur. Það þótti fáránlegt að við hjónin ætluðum að víxla þessum stöðluðu hlutverkum. Sérstaklega var tekið fram að faðirinn ætti ekkert heima í þeim ,kvennamálum‘ sem færu fram hjá foreldrafélaginu.
  • Þegar eitthvað bjátar á hjá einhverju af börnunum okkar í skólanum er hringt í mig (móðurina) þrátt fyrir að við höfum beðið um að hringt sé fyrst í föðurinn. Sameiginlegur tölvupóstur fyrir málefni sem varða börnin hefur leyst töluvert þennan vanda svo nú fær heimilisfaðirinn að fylgjast með gangi mála.
  • Í hverju einasta vinnuviðtali sem ég hef farið í – frá því ég var um 19 ára hef ég verið spurð að því hvort ég a) ætli að eignast börn b) sé að fara að eignast fleiri börn c) hvernig ég ætli að fara að því að vinna – fyrst ég á öll þessi börn! (maðurinn minn hefur ekki verið spurður spurninga er varða heimili eða börn og hvernig hann ætli að tvinna þessa þætti saman

Þannig að …. mér er ekki skemmt og tel að þessir litlu hversdagslegu þættir sem birtast endurtekið og dæmin hér sýna eigi stóran þátt í að viðhalda ríkjandi samfélagsgerð.

P.s. Auglýsingin hér efst á að vera fyndin og er beint til hugmyndaríkra kvenna sem luma á viðskiptahugmynd, eru í atvinnurekstri eða hafa áhuga á að reyna fyrir sér í slíku. Þar sem mér fannst hún ekki spönn fyndin og hreinlega grafa undan þeim gildum sem stofnunin Atvinnumál kvenna hefur að yfirlýstu markmiði sendi ég athugasemd til þeirra og bað þá vinsamlegast um að útskýra þær ástæður sem liggja að baki myndbirtingunni.

Svarið er áhugavert:

Að okkar mati er staðalmynd kvenna allt önnur en birtist í auglýsingunni  og ætti hún því vart að ýta undir hana.   Hinsvegar vísar auglýsingin til gamalla gilda sem eitt sinn voru í hávegum höfð,  með ákveðinni kímni.  Auglýsingin hefur vakið athygli og þá er okkar tilgangi náð, að ná til kvenna með góðar hugmyndir og verkefni.

Ég vek athygli á því að sjóður þessi hefur verið starfandi síðan 1991 og veitt hundruðum kvenna styrk til að láta drauma sína rætast og vinna að verkefnum sínum.  Við munum gera það þangað til að jafnrétti hefur náðst í þeim efnum en rannsóknir sýna að konur hafa ekki sama aðgang að láns- og styrkfé og karlar.

Það er því vert og mikilvægt málefni sem að baráttukonur og menn í réttindabaráttunni þyrftu að vekja athygli á og  beina kröftum sínum að til að ná fram breytingum.

 

Haldið ykkur fast…

því hér kemur VORÖSKRIÐ mitt!!!

Mastersritgerðin mín „Rusl menningar“ má lesa á Skemmunni.

góðar stundir

p.s. þetta er í raun mynd af mér að geispa á vinnustofunni minni…. en myndmálið lýgur aldrei… eða hvað?

Útvarpsraddir og myndmál

Guðrún Karlsdóttir veltir fyrir sér áhugaverðum spurningum um hvort útvarpsstöðin Bylgjan sé karlastöð.

Það vill svo til að ég fjalla aðeins (óbeint) um þetta í ritgerðinni minni:

Ímyndin af hinni skælbrosandi konu virðist vera ein af algengustu staðalmyndum í sjónmenningunni og er það oft undirstrikað þar sem myndbirting karla sýnir alvörugefnara fas. Auglýsingin hér fyrir neðan er gott dæmi um þetta en hér eru tveir þáttastjórnendur útvarpsþáttar sýndir – hún brosir breitt en hann ekki. Á bak við þau tvö sjást fréttaþulur og tæknimaður – þeir horfa brúnaþungir framan í áhorfandann.

Hið ,eðlilega‘ foreldrahlutverk

Ég vaknaði í morgun, líkt og aðra virka morgna, við morgunútvarp rásar2. Í gegnum svefninn heyrði ég að verið var að ræða hið ,eðlilega samband‘ milli ungabarns og móður. Pistlahöfundur  var óðamála og vildi koma á framfæri þeirri staðreynd að margir af þeim karlmönnum sem nýttu réttindi til feðraorlofs væru í raun að eyða tímanum í eitthvað allt annað, byggja bílskúr (?) eða fara á veiðar, þeir væru að misnota kerfið – enda væri það fáránlegt að halda að ungabörn þyrftu að tengjast feðrum sínum fyrstu árin – það væri mikilvægara að þau tengsl yrðu á unglingsárum – það væri ,eðlilegast‘ – náttúrulegast!

Áhugavert er að skoða það menningarlega forræði sem fjölmiðlar og auglýsingar hafa og hvernig þessir þættir móta hið siðferðislega rétta í samfélaginu – normið. Það er því hollt að staldra við og gagnrýna þá ímynd sem ítrekað er dregin upp af fjölskyldueiningunni og hlutverki kynjanna innan hennar, en ímyndin um fjölskylduna er ein af grunnstoðum nútímasamfélagsins. Ríkjandi orðræða auglýsinganna, sem byggir á hefðum og gildum feðraveldisins, heldur þannig á lofti því sem telst til eftirbreytni.

Hér að ofan er mynd úr auglýsingaherferð fyrir líftryggingar. Myndin sýnir teikningu af karli og konu sem halda á ungabarni (klætt í blá föt). Á myndinni eru örvar sem benda annars vegar á föðurinn og hins vegar á móðurina. Örvarnar eru samhverfar og hjá þeim standa orð sem eiga að lýsa því hvernig ábyrgt foreldri er.

Hér eru nokkur dæmi úr rituðu máli auglýsingarinnar:

  • Móðirin: Rækta líkama og sál – Faðirinn: Afla sér þekkingar, (örvar á höfuð).
  • Móðirin: Halda góðri rútínu – Faðirinn: Axla ábyrgð, (örvar á herðar).
  • Móðirin: Sýna tillitssemi – Faðirinn: Deila verkefnum á heimilinu, (örvar á hendur).
  • Móðirin: Hvílast vel – Faðirinn: Stappa stálinu í aðra þegar á móti blæs, (örvar á fætur).
  • Móðirin: Vera jákvæð – Faðirinn: Sýna tómstundum annarra í fjölskyldunni áhuga, (örvar á fætur).

Hlutverk hins ábyrga föðurs, samkvæmt auglýsingunni hér, styrkir og viðheldur ímynd karlmennskunnar. Orðin sem standa við líkamshluta föðursins eru framsækin, nánast hernaðarleg og þar er að finna orð eins og: skipulag, að deila verkefnum, stappa stálinu í, að hvetja áfram o.s.frv. Ef skoðuð eru þau orð sem standa við líkamshluta móðurinnar sést hvernig þau fela í sér orðræðu um náttúruna eins og t.d. að rækta, að búa í haginn og styrkja þannig ímynd móðurinnar við umönnun og ,hreiðurgerð‘. Þau orð sem lýsa móðurinni vísa einnig í líkama hennar og tilfinningar, þannig virðast orð eins og: að hvílast, vera jákvæð, sýna tillitssemi, ýta undir þær hugmyndir að kona sé undirgefnari og viðkvæmari en karlmaður.

Það er athyglisvert að þrátt fyrir að reynt sé að gæta jafnréttis í myndmálinu (þau halda bæði á barninu og horfa bæði brosandi fram í lesandann) byggir uppstilling myndefnis á rótgrónum kynjaímyndum. Karlmaðurinn er stærri, það er hann sem heldur á barninu en konan styður við það. Hér er því undirstrikað það sem kemur fram í texta auglýsingarinnar: ímynd móðurinnar sem viðkvæm tilfinningavera og föðursins sem verndara og geranda í foreldrahlutverkinu.

Photoshop by Adobé

Þetta myndband er auðvitað bara snilld!

tékki it át….

Móðirin og sú mun(n)úðarfulla

Það besta (versta!) við að rannsaka sjónmenningu í hversdeginum er hinn endalausi efniviður sem streymir nánast óáreittur til mín…. ég hef líkt þessu við að loka augum, bretta upp ermar og draga þannig nærtækasta dæmið úr t.d.næsta dagblaði, af nógu er að taka og í flestum tilvikum er það gagnrýni vert.

Þetta er einstaklega óheppilegt ástand – svona þegar maður er ákkúrat að pakka saman ritgerð um efnið, það er erfitt að setja punktinn – og sífellt blasa við fleiri dæmi sem bara „verða að vera með í ritgerðinni“.

Hér er t.d. eitt gott dæmi (en það fær að fljóta með …. hún er nú ekki komin í prentsmiðjuna ennþá …) sem kallaði á smá næturvinnu og fæddi af sér splúnkunýjan kafla um móðurímyndina sem birtist í auglýsingum:

  

Það er nokkurn veginn tvær gerðir af kvenímyndum sem eru hvað mest áberandi í íslenskum auglýsingum: sú móðurlega og hin munúðarfulla. Þetta tvennt fer þó nær aldrei saman. Munúðarfulla konan er þó oft sýnd þegar vörur fyrir t.d. heimilið eru auglýstar (sjá mynd hér t.v)). Svipur konunnar og áherslan á opinn munn hennar, í auglýsingunni hér, minnir um margt á kynlífsdúkku. Tengslin við lampa og önnur heimilistæki sem eru auglýst hér – eru óljós.

Því er hins vegar öfugt farið í auglýsingunni hér til hægri, en hún sýnir konu ásamt tveimur börnum. Konan heldur utan um stúlkuna en þær horfa báðar (þolinmóðar?, með aðdáun?) á drenginn tala í símtól. Gefið er í skyn að hér sé móðir ásamt börnum sínum og verið sé að tala við einhvern nákominn þeim (hinn fjarverandi föður?).

Textinn segir: „Öll símtöl til útlanda á jóladag á 0 kr.“ Það er athyglisvert hvernig útlit og framsetning auglýsingarinnar vísa í gamlan tíma. Húsgögnin, símtólið og aðrir innanstokksmunir eru gamaldags (það hangir t.d. klukkustrengur á veggnum fyrir aftan drenginn). Hér er því vísað í gömul gildi og þær hefðir sem e.t.v. þykja orðið eftirsóknarverðar, hinn útivinnandi faðir sem er fjarri og húsmóðirin sem hefur það hlutverk að hugsa um börn og bú? Samkvæmt myndmáli auglýsingarinnar má ætla að þessi gildi þyki eftirsóknarverð. Hér er því móðurímyndin allsráðandi en hin munúðarfulla kona er víðsfjarri.

….aaaðeins meira um bókakápur…

Líkt og aðrar neysluvörur byggja umbúðir og hönnun bóka, í flestum tilvikum, á þeim markhóp sem verið er að höfða til og verða bókmenntaflokkarnir sífellt fjölbreyttari og fleiri eftir því sem nýir mögulegir neytendahópar myndast á markaði.

Skvísubókmenntir (e. chick lit) og lífstílsbækur fyrir unga herramenn eru dæmi um þær bókmenntategundir sem hafa fest sig í sessi í íslenskri bókaútgáfu. Þessar bókmenntategundir búa yfir táknkerfi myndmáls sem er lýsandi fyrir innihaldið og móta ímynd bókmenntategundarinnar. Myndmálið á kápum íslenskra skvísubókmennta byggir t.d. á erlendum fyrirmyndum sem markast af tölvuteiknuðum myndum, yfirleitt af kvenmanni eða hlutum sem eiga að  vera lýsandi fyrir konur  (skór, snyrtivörur, innkaupapokar, hanastél o.þ.h.). Það er athyglisvert að sjá hvernig þetta myndmál skvísubókmenntanna hefur færst yfir á aðrar neysluvörur eins og t.d. á umbúðir mjólkurvara.

  

Það ætti ekki að koma á óvart hvernig íslenskar bókakápur halda á lofti hinum ýmsu staðalmyndum sem eru ríkjandi í sjónmenningu hversdagsins, þær sömu og birtast okkur t.d. í auglýsingum og dagblöðum. Lífstílsbókmenntir geta þannig styrkt ákveðnar staðalmyndir samfélagsins en einnig geta þær afhjúpað þessar birtingarmyndir eins og bókin Hola, lovers: hvernig á að þóknast karlmönnum og vera betri en aðrar konur gerir á myndrænan og beinskeittan hátt.

 

góða stundir

%d bloggurum líkar þetta: