Þræðir og fléttur – alþjóðleg afmælisráðstefna RIKK

VARÚÐ  – ÞETTA ER LANGUR PISTILL!

Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum var haldin í Háskóla Íslands um helgina.

Þetta var vægt sagt áhugaverð ráðstefna sem skiptist í nokkra lykilfyrilestra og síðan málstofur.

Ég ætla að hér aðeins að nótera það sem mér finnst ég hafa gripið á lofti eftir að hafa hlustað á þessi merkilegu erindi en að sjálfsögðu er hér stiklað á stóru:

Mánudagur:

Jón Gnarr opnaði ráðstefnuna, hann var mun alvarlegri en hann hefur áður verið, það fannst mér viðeigandi – það var þó mjög broslegt þegar hann lýsti því yfir hversu svekktur hann væri yfir að enginn fjölmiðill hefði viljað skyggnast í snyrtibudduna hans – fá að vita hvaða raksápu hann notar og svona… 😉

Cynthia Enloe fjallaði um Strauss-Kahn málið og mikilvægi þessa að skoða menningarlegan strúktur t.d. valdastofnanna en ekki einungis að fókusera á t.d. persónur og einstakar gjörðir innan þeirra (hún var að sjálfsögðu ekki að líta fram hjá persónunni Strauss- Kahn og hans sögu en bendir á að hér séu fleiri menningarleg lög sem þarf að horfa í gegnum til að komast að rót vandans). AGS er t.d. karllæg valdastofnun sem nýtur einnig nokkurs konar friðhelgi frá lögum og reglum annarra (vestrænna þjóða). Karlmenn eru í stórum meirihluta stjórnenda og eftir stórtæka rannsókn sem gerð var innan stofnunarinnar á árinu 2008 kom fram að stofnunin teldist „heppin“ að hafa ekki fengið á sig ákærur vegna kynferðislegrar áreitni. Inni á kvennaklósettum stofnunarinnar væri t.d. alkunna hvaða yfirmenn bæri að varast, að maður ætti að passa sig á að mæta ekki í of stuttum pilsum í vinnuna o.s.frv. Enloe telur að „svona“ atriði afhjúpi menningarlegt umhverfi stofnanna.

Enloe fjallaði einnig um uppáhalds viðfangsefni mitt út frá þessu, hið almenna opinbera rými. Þrátt fyrir að kona hafi verið kosin í valdastöðu innan AGS telur Enloe að hinn menningarlegi strúktur og bakgrunnur AGS sé enn sá sami – þ.e. viðurkennt karlasamfélag sem lítur niður á konur = sami valdastrúktúr. Enloe fjallaði einmitt um það hversu erfitt það sé fyrir þær konur sem eru „settar“ í valdastöðu eftir að ákveðin krísa hefur átt sér stað (sbr. Jóhanna verður forsætisráðherra en verður um leið að gangast inn í ríkjandi kerfi). Krafan er bókstaflega sú að þessar konur leggi frá sér ýmislegt úr sínum „farangri“ (sem við getum líka kallað „persónulega reynslu“ eða hinn margbrotni einstaklingur) – skilji allt þetta eftir fyrir utan hið opinbera rými (eða áður en þær gangast við hinu nýja valdahlutverki sínu). Þarna liggur einmitt rót vandans, hvernig á ein kona, sem einnig þarf að gangast undir skilyrði ríkjandi stigsskipulags, að breyta og sannfæra aðra um t.d. jafnrétti eða áherslubreytingar?

Pallborðsumræður um „hverju menntun kvenna hefur skilið?“ voru áhugaverðar, sagnfræðingurinn Guðmundur Hálfdanarson hefur tekið saman tölur sem sýna að þrátt fyrir að konur hafi að forminu til haft aðgengi að Háskóla Íslands nær allt frá stofnun skólans hafi aðgengi þeirra að „æðri“ greinum ekki verið raunhæfar. Háskólanám kvenna var þannig lengi vel talin sem ágætis „biðtími“ áður en þær helguðu sig börnum og búi. Í dag eru útskrifaðar konur úr HÍ í meirihluta (eða yfir 70%) það er áhugavert hvernig þessi þróun speglast ekki í kynbundnum launamun samfélagsins, þ.e. ef við göngun út frá því að menntun eigi að veita aðgang að hærri launum.

 

Fyrri málstofa – Á rauðum sokkum, baráttukonur segja frá. 

Einstaklega fróðleg erindi um sögu Rauðsokkahreyfingarinnar á Íslandi – en einnig var ástæðan að fjalla um nýútkomna bók um Rauðsokkuhreyfinguna (sem er komin á óskalistann fyrir jólin 😉 Erindi listakonunnar Hildar Hákonardóttur var vægt sagt heillandi – þar útskýrði hún í máli og myndum hvernig form skiptir máli hvað varðar andóf – í þessu tilfelli andóf og kvennarhreyfingar. Pýramída-laga valdakerfi tóku á sig lífrænt hringlaga form við myndum álitshópa innan Rauðsokkuhreyfingarinnar. Mér fannst þetta athyglisverð nálgun á birtingarmynd andófs – enda algjörlega tengt pælingum mínum um form, rými og fagurfræði andófs! Ég hefði viljað halda áfram að hlusta á Hildi allan daginn.

Seinni málstofa – Konur í skáldskap karla

Var áhugaverður – þá aðallega erindi Daisy Neijman og rannsóknir hennar á hugmyndinni um „ástandskonur“ í íslenskum hernámssögum. Það verður spennandi að fylgjast með þessu verkefni.

Seinni dagur – Fyrirlestur  Beverly Skeggs um menningarlegt kapital.

Það er ekki hægt að segja annað en að fyrirlestur prófessorsins hafi vakið innblástur og komið af stað mörgum hugmyndum sem hægt er að máta yfir á íslenskan samtíma. Skeggs fjallaði um kenningar sínar um menningarlegt gildi eða virði einstaklinga og þá sérstakleg ákveðinna samfélagshópa. Hún tekur fyrir menningarlegt gildi kvenna úr breskri verkamannastétt og birtingarmynd þeirra í raunveruleikasjónvarpsþáttum t.d þar sem þær eru háðar vegna útlits og heimsku og drykkjuláta. Það er athyglisvert hvernig Skeggs sýnir fram á hvernig hugmyndir um millistéttina sem hið samfélagslega norm (þ.e. útlit, hegðun, framsetnin þess hóps) er styrkt með því að sýna fram á þær ýkjur (not proper) annarra hópa, elítunnar, verkamannastéttarinnar o.sv.frv. Þetta sjáum við líka t.d. í framsetningu og orðræðu í kringum feitt fólk og áfram má telja.

Fyrri málstofa – Skeggræður um skinkur og stétt.

Fjallaði einmitt um kenningar Beverly og þær mátaðar á íslenskan samtíma. Hringborðsumræður um Tobbu Marínós, Gillz og skilgreining samfélagsins á skinkum og það að vera skinka eða vera það ekki – voru mjög athyglisverðar.

Seinni Málstofa – Fjölmiðlar og ímyndir.

Upphaflega ætlaði ég mér bara að kíkja rétt svo á þessa málsstofu en hún var um margt áhugaverð, þá einna helst umræðurnar sem fylgdu í kjölfar erindanna. Guðbjörg Hildur Kolbeins kom fram með sláandi tölu um konur í fjölmiðlum þ.e. hversu mikið „pláss“ þær fá í fjölmiðlaumræðu sem skapast í síðustu tvær vikurnar í kringum kosningar hér á landi. Hér kynnti hún fyrir rannsóknir sem gerðar voru á kynjahlutfalli í fjölmiðlum (í frétttímum íslenskra útvarpsstöðva, sjónvarpsstöðva og prentaðra dagblaða) í sl. þremur kosningum; Alþingiskosningarnar 2009, sveitastjórnakosningar 2010 og kosningar til stjórnlagaráðs 2011. Tölurnur eru vægt sagt sláandi. Hér er of langt mál að rekja þessar niðurstöður en við áheyrendur hvöttum Guðbjörgu að reyna að kynna þessar niðurstöður sem víðast. Í stuttu máli hefur lítið breyst sl. áratugina eða hin „heilaga tala“ 70%- 30% er sem steypt í mót. Reyndar var áhugavert að sumstaðar var bilið enn breiðara eða 79%-21%.

Ég get ekki annað sagt en að tilfinningarnar; stolt, depurð en smá bjartsýni fari um mann núna.

 

 

 

 

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: