„Um daginn var hér í dálkunum minnzt á morð- og klámkápur þær, sem bandarískir bókaútgefendur öðrum fremur búa bækur sínar í […]. Menn geta semsé orðið nokkru vísari um menninguna með því að skoða bókakápur.“[1]
Jæja þá kom loksins að því – bókakápukafli ritgerðarinnar er kominn á sinn stað.
Ef það er eitthvað sem ég hef lært af þessum ritgerðarskrifum er að maður á EKKI að vera að geyma uppáhalds umfjöllunarefnið þar til síðast….kaflinn sem átti að vera svo skemmtilegur og flottur og ég hef geymt sem gulrót var allt i einu farinn að væflast fyrir mér – af hverju? jú- ég hefði getað skrifað aðra mastersritgerð um efnið 🙂
Ég er forfallin áhugamanneskja um útlit og framsetningu bóka – hef hannað þær nokkrar skrifaði B.a. verkefni um þær og geri mér því vel grein fyrir því flókna táknkerfi sem bókakápur búa yfir.
Með því að skoða myndmál, liti og leturgerðir bókakápa með gagnrýnum augum koma í ljós endurtekningar á hinum ýmsu, sjónrænum, þáttum sem ýta undir algengar staðalmyndir um t.d. hlutverk kynjanna
Flestar þær íslensku bækur sem ætlaðar eru börnum og unglingum eru þó kynntar sem bækur fyrir bæði kynin. Hér stangast þó oft á myndmál bókanna á við hið yfirlýsta markmið um halda uppi jafnréttissjónarmiðum í bókaútgáfu.
Barna- og unglingabækur sem tengjast heimilishaldi eða matreiðslu og eru jafnvel hugsaðar fyrir „alla fjölskylduna“ birta í flestum tilvikum einungis myndir af stúlkum og ,handskrifaðar‘ leturgerðir og litir vísa í ,kvenlegri‘ þætti sjónmenningar. Þær barnabækur sem fjalla t.d. um tækni og vísindi, íþróttir eða spennu virðast frekar birta myndir af strákum eða karlmönnum á bókakápu og endurspeglar líkamsstaða og svipbrigði þeirra oft stolt, áræðni og mikið sjálfstraust.
Hér er t.d. nokkur handahófskennt dæmi – og ég rýni í myndmál bókanna.
Ríólítreglan: háskalegur huldutryllir, tekin sem . Kápan sýnir hóp ungmenna sem standa í hnapp, þrír strákar og tvær stelpur. Líkamsstaða strákanna gefur til kynna öryggi og áræðni þeirra og það er áberandi hvernig þeir horfa allir beint fram til lesandans. Stúlkurnar tvær sjást bakvið drengina og horfa báðar til hliðar.
Það er athyglisvert hvernig stelpur eru oft sýndar sem óöruggari – horfa ekki í augu lesandans heldur ,út úr myndinni‘
Þetta sést t.d. á bókakápunni Upp á líf og dauða, en þar horfir strákurinn beint fram á meðan stelpan horfir niður – þarf að einbeita sér að því að detta ekki?
[1] Þjóðviljinn, miðvikudaginn 12. nóvember 1952, bls. 4. Opinber umræða í fjölmiðlum hefur breyst þegar kemur að viðhorfum um hlutverk bókakápunnar í íslenskri útgáfusögu. Undir lok fimmta áratugarins fara að birtast umræður af þessu tagi í íslenskum fjölmiðlum eins og hér er vitnað í. Síðastliðinn áratuginn (2000-2011) hefur opinber umræða um bókakápur einkennst af ,orðuveitingum‘ og ,skammarræðum‘ undir fyrirsögnunum „Bestu og verstu kápurnar“, sjá t.d. vefslóðina: http://www.frettatiminn.is/daegurmal/bestu_verstu_bokakapurnar
Líkar við:
Líka við Hleð...