
Ég vona að Halldóra Ingimarsdóttir afsaki það að ég fái lánaða þessa mynd, en samsetningin hér er hennar.
Nú er ég nokkuð langt komin með ritgerðina mína sem fjallar um sjónmenningu í íslensku hversdagslífi, og er því e.t.v extra vel á verði gagnvart þeim myndbirtingum sem blasa við okkur dagsdaglega í umhverfinu (og já, ef einhver spyr þá er hægt að „greina“ jógúrtdollur, veggspjöld og umferðarskilti“ no prob 😉
Og þetta er einmitt útkoman (sjá mynd) – en finnst okkur þetta í lagi ?
Flestir sem spyrja um hvað ritgerðin fjallar hvá við og segja “ ég horfi aldrei á þessar auglýsingar – ég fletti varla þessum dagblöðum“ og telja þar með að sjónmenningin – ruslið í afþreyingarmenningunni – skipti í raun ekki máli, hafi ekki áhrif.
Sem móðir þriggja barna hef ég áhyggjur af þeirri sjónmenningu sem borin er á borð fyrir þau og gegnsýrir samfélag okkar – og hér er ég bara að tala um íslenska miðla en ekki t.d. það sem er hægt að nálgast á netinu.
Ég er s.s. „leiðinlega“ mamman sem sannfærir táningsdóttur sína um það að fegurðin komi innan frá, að hún þurfi ekki að fela góðar einkunnir sínar til að ganga í augun á jafnöldrum sínum og að þröng mínípils og háir pinnahælar geri hana ekki að betri kynveru – sjálfstraust og góð sjálfsmynd er það sem við foreldrarnir höfum valið að innræta börnum okkar.
Strákarnir mínir tveir hjala lög eftir Steinda, vilja heyra í Audda Blö á eff emm og bíða spenntir að dýrðardrengir á borð við Sveppa og Co. fari núa að freta einhverju skemmtilegu í loftið. Og þeir horfa á Gillz með aðdáunarglampa í augum – og áhrifin breiðast hratt út og eru sterk…. í dag þurfti ég t.d. að útskýra fyrir 10 ára syni mínum að það að nauðga væri hræðilegt ofbeldisverk og það að hóta að einhver ætti skilið að vera nauðgað væri já – bannað. Í ljósi fjölmiðlaumræðu sl. viku varðandi ákærur á hendur Agli Einarssyni er s.s. orðið „nauðgun“ orðið að einhvers konar tískuorði hjá ungum drengjum, þetta er e-ð „rosalegt“ þetta sem Gillz er sakaður um“ og þeir að nota þetta orð sem hvert annað slogan..“já, sæll“ er skipt út fyrir „á ég að nauðga þér“.
Þeir vita ekki betur, vita sumir ekki hvað það þýðir – þeir eru 10 ára.
Ég vil ala upp börnin mín í samfélagi þar sem ólíkar skoðanir fá rými, þar sem tekið er tillit til þess að við höfum öll eitthvað fram að færa – að við búum öll yfir orku sem býr innra með okkur og eigum að leitast eftir jafnvægi (já ég er týpískt vog).
Þannig samfélag birtir ekki konur í stöðluðum hlutverkum sem annaðhvort „móðir“ eða „dræsa“ og sendir þau skilaboð til stúlkna að annað „sé ekki í boði“ fyrir þær (nema þá að vera óeðlilegt frávik)…. og skilaboð til drengjanna eru engu skárri – „hlæðu á kostnað annarra, gerðu lítið úr öðrum – vertu búllí þá vegnar þér vel“
Við berum öll ábyrgð, og getum breytt hlutum.
Best er að byrja á að horfa á gagnrýninn hátt á hversdagslíf okkar og fræða börnin um það sem fyrir augum ber.
Líkar við:
Líka við Hleð...