Að dæma bókina….

„Um daginn var hér í dálkunum minnzt á morð- og klámkápur þær, sem bandarískir bókaútgefendur öðrum fremur búa bækur sínar í […]. Menn geta semsé orðið nokkru vísari um menninguna með því að skoða bókakápur.“[1]

Jæja þá kom loksins að því – bókakápukafli ritgerðarinnar er kominn á sinn stað.
Ef það er eitthvað sem ég hef lært af þessum ritgerðarskrifum er að maður á EKKI að vera að geyma uppáhalds umfjöllunarefnið þar til síðast….kaflinn sem átti að vera svo skemmtilegur og flottur og ég hef geymt sem gulrót var allt i einu farinn að væflast fyrir mér – af hverju? jú- ég hefði getað skrifað aðra mastersritgerð um efnið 🙂
Ég er forfallin áhugamanneskja um útlit og framsetningu bóka – hef hannað þær nokkrar skrifaði B.a. verkefni um þær og geri mér því vel grein fyrir því flókna táknkerfi sem bókakápur búa yfir.
Með því að skoða myndmál, liti og leturgerðir bókakápa með gagnrýnum augum koma í ljós endurtekningar á hinum ýmsu, sjónrænum, þáttum sem ýta undir algengar staðalmyndir um t.d. hlutverk kynjanna
Flestar þær íslensku bækur sem ætlaðar eru börnum og unglingum eru þó kynntar sem bækur fyrir bæði kynin. Hér stangast þó oft á myndmál bókanna á við hið yfirlýsta markmið um halda uppi jafnréttissjónarmiðum í bókaútgáfu.
   
Barna- og unglingabækur sem tengjast heimilishaldi eða matreiðslu og eru jafnvel hugsaðar fyrir „alla fjölskylduna“ birta í flestum tilvikum einungis myndir af stúlkum og ,handskrifaðar‘ leturgerðir og litir vísa í ,kvenlegri‘ þætti sjónmenningar. Þær barnabækur sem fjalla t.d. um tækni og vísindi, íþróttir eða spennu virðast frekar birta myndir af strákum eða karlmönnum á bókakápu og endurspeglar líkamsstaða og svipbrigði þeirra oft stolt, áræðni og mikið sjálfstraust.
    
Hér er t.d. nokkur handahófskennt dæmi – og ég rýni í myndmál bókanna.
Ríólítreglan: háskalegur huldutryllir, tekin sem . Kápan sýnir hóp ungmenna sem standa í hnapp, þrír strákar og tvær stelpur. Líkamsstaða strákanna gefur til kynna öryggi og áræðni þeirra og það er áberandi hvernig þeir horfa allir beint fram til lesandans. Stúlkurnar tvær sjást bakvið drengina og horfa báðar til hliðar.
Það er athyglisvert hvernig stelpur eru oft sýndar sem óöruggari – horfa ekki í augu lesandans heldur ,út úr myndinni‘
Þetta sést t.d. á bókakápunni Upp á líf og dauða, en þar horfir strákurinn beint fram á meðan stelpan horfir niður – þarf að einbeita sér að því að detta ekki?

[1] Þjóðviljinn, miðvikudaginn 12. nóvember 1952, bls. 4. Opinber umræða í fjölmiðlum hefur breyst þegar kemur að viðhorfum um hlutverk bókakápunnar í íslenskri útgáfusögu. Undir lok fimmta áratugarins fara að birtast umræður af þessu tagi í íslenskum fjölmiðlum eins og hér er vitnað í. Síðastliðinn áratuginn (2000-2011) hefur opinber umræða um bókakápur einkennst af ,orðuveitingum‘ og ,skammarræðum‘ undir fyrirsögnunum „Bestu og verstu kápurnar“, sjá t.d. vefslóðina: http://www.frettatiminn.is/daegurmal/bestu_verstu_bokakapurnar

Er ekki 2012 á leiðinni?

Það er ótrúlegt að fylgjast með þeirri bylgju nostalgískra mynda sem dynur nú á. Í sjónvarpinu hafa þættir eins og Mad Man og Pan Am t.d. notið vinsælda, bíómyndin The Help var einnig mjög vinsæl í ár og tískan á götum úti vísar einnig í þetta tímabil eftirstríðsáranna (eigum við að ræða pinnahælana…).

Áhrif þessa sjást líka í íslenskum fjölmiðlum, lýsing, uppstillingar og stílísering ljósmynda í t.d. auglýsingum og dagblöðum birta okkur myndheim 5. og 6. áratugarins og sveipa um hann goðsögulegan blæ (rauðmálaðar brosandi varir blasa við nær daglega – og tannhvíttunin verður allt í einu að nauðsynlegum ,valkosti‘)

Það er undarlegt að verið sé að hylla ákveðið tímabil sögunnar þar sem t.d. misrétti og kynþáttafordómar þóttu ,eðlilegt‘ samfélagslegt ástand og í raun enginn önnur rödd átti upp á hinn opinbera vettvang nema rödd hins hvíta miðaldra millistéttarmanns!

En í nútímanum er dýrkun þessa tímabils klætt í búninginn „við- vitum – að – þið- vitið – að – við – vitum“…. þess vegna megum við setja upp þessar auglýsingar í ljósi þess að þetta var ,fyndið‘ tímabil.

Ruglingslegt? Já, ég held að það sé einmitt markmiðið. Þ.e. að setja fram sömu klisjurnar sem ýta undir það misrétti sem ríkir í samfélaginu undir þeim formerkjum að verið sé að skoða söguna í nú-inu. Sem væri e.t.v. fyndið ef myndbirting t.d. kvenna í fjölmiðlum hefði tekið einhverjum stakkaskiptum sl. áratugina. En svo er nú ekki.

Þrátt fyrir að t.d. auglýsingar, kvikmyndir og sjónvarpsþættir, birtast undir þeim formerkjum að verið sé að vísa í ákveðið tímabil sögunnar, hljótum við að setja spurningarmerki við það sjónarhorn sem enn er haldið  á lofti.

Konan sem viðfang, konan sem passív, konan og áherslan á líkama hennar sem söluvöru.

Hér á eftir eru dæmi um auglýsingar fengnar úr íslenskum dagblöðum sl. vikurnar.

       

    

  

Gleðilegt ár!

Megi 2012 verða ár gagnrýninnar hugsunar.

SÍS :)

 

 

„Ekki brosa of mikið því þá er ekki tekið mark á þér –
en ekki gleyma að brosa því annars er gengið fram hjá þér.“

Hér er vitnað í konu sem hefur verið mér mikil fyrirmynd en hún lét þessi orð falla fyrir rúmum áratug síðan.

Mér finnst þessi orð segja svo margt: það er erfitt að stimpla sig úr því klukkuverki sem samfélagið virðist ganga eftir en það má heldur ekki gleyma að það þarf viðspyrnu til að breyta og móta þetta kerfi. (Auglýsingin hér að ofan er síðan 1943)

Hér á eftir eru myndadæmi úr íslenskum fjölmiðlum – yfirskriftin gæti verið „brostu stelpa“ eða eitthvað álíka. Athygli vekur að þegar karlmönnum og konum er stillt upp saman á mynd í dagblaðaviðtali eða í auglýsingum þá virðist bros konunnar vera nauðsynlegt en karlmenn líta út fyrir að vera heldur alvörugefnir (sjá t.d. auglýsingu Bylgjunnar, í Fréttatímanum í dag sé ég að Bylgjan auglýsir annan þátt einungis skipaðan karlkyns þáttarstjórnendum, þeir eru þrír – allir grafalvarlegir).

     

           

   

Það kemur ekki á óvart að flestar þær umfjallanir eða auglýsingar sem snúa að útliti og fegurð birta myndir af  konum – yfirleitt skælbrosandi. Það er s.s. ekkert nýtt og hægt að sjá þessa birtingarmynd kvenna allt frá upphafi auglýsinga og prentaðra miðla.

Síðastliðnar vikur hef ég skoðað prentuð dagblöð og auglýsingar í þeim, með blöðunum fylgja oft svokölluð sérblöð þar sem ýmis starfsemi eða vörur eru kynntar sérstaklega, hér fyrir ofan eru t.d. þrjú dæmi úr þannig blaði sem nefnist Tannhvíttun. Það er fróðlegt að sjá hvernig öll orðræða blaðanna er beint að konum og myndmálið sýnir einnig konur sem brosandi og ánægð viðföng (skoðið einnig myndina hér fyrir ofan sem sýnir aðferðir og árangur tannhvíttunnar, þetta eru allt kvenmansbros). Það er einungis ein mynd af karlmanni í sérblaðinu en hún sýnir karlmanninn sem geranda, höfuð konunnar sem liggur í tannlæknastólnum hefur verið „skorið /kroppað“ frá myndinni:

Ég hvet ykkur til að horfa gagnrýnið á þær skyndi-menningar-afurðir sem eiga þátt í að móta og viðhalda ríkjandi valdastrúktúr í íslensku samfélagi.

 

 

 

Komin mynd á málið…

Það er svo ótrúlegt hvað hlutirnir verða skýrari þegar þeim er raðað sjónrænt beint fyrir framan augun á manni. Hér koma t.d. nokkur dæmi sem rata vonandi öll í ritgerðina. Hér óma orð prófessorsins Hr. Munks í eyrum mér þegar hann hélt fyrirlestur um nauðsyn þess að birta myndir af konum og/eða loðnum dýrum á forsíðu dagblaða – hann taldi það nánast nauðsynlegt. Hér var ég eitthvað að fjalla um þetta.

Myndirnar hér fyrir neðan eru fengnar úr íslenskum dagblöðum (prentuðum) sl. mánuðinn. Það vekur sérstaka athygli að sjá hvernig konum er oft stillt upp með mjúkum dýrum (og þá yfirleitt í svokölluðum „mýkri“ síðum blaðsins sem snúa að heimilinu, lífstíl, tísku og matargerð) – þær eru oftast sýndar haldandi (móðurlega) á dýrunum þrátt fyrir að meginefni viðtalsins fjalli ekki (í flestum tilvikum) um dýr eða dýrahald?

  

Þetta á líka við um fréttamyndir sem tengjast börnum. Í öllum þeim tilvikum sem ég rakst á myndir af börnum voru það myndir af stelpum og þá yfirleitt  standandi við hliðiná dýrum, haldandi á þeim eða að umvefjandi  þau á einhvern hátt. Ég sá engar þannig myndir af strákum.

      

Nokkuð erfiðara var að finna myndir af karlmönnum haldandi utanum dýru einhverskonar – ég fann reyndar einungis eina þannig og hún var af söngvaranum í Retro Stefson þar sem hann heldur á hvítum kjölturakka. Ef karlmenn eru myndaðir hjá dýrum eru það yfirleitt í tengslum við veiði eða bráð, matseld eða þá að karlmenn eru að kljást/glíma við dýrin (þá eru það yfirleitt stórbeinóttir hundar).

Í auglýsingum er þetta svipað. Hér sést t.d. mynd af þokkdís að auglýsa undirfatnað. Við hlið hennar er búr með þremur (dúnamjúkum) kanínum. Hér má e.t.v. ganga lengra í greiningunni og velta því fyrir sér hvers vegna konan heldur ekki á dýrunum – rækjust þá á hinar helstu staðalmyndir kvenna í fjölmiðlum: dræsan og móðirin?

… og hér virðast dýradaga og kvennakvöld renna saman í eitt:

karlpeningu og dýr…

Og að öðru dúnamjúku… hvað er málið með dýnur, rúm, sængur og lín….. af fjölmiðlum að dæma eru það einungis konur og börn sem nota svoleiðis:

   

Hér tel ég að um merkilega uppgötvun sé að ræða – þó óvísindaleg sé hún ;)…. meira síðar

góðar jólastundir í dúnamjúkri mjöllinni

Mechanical Brides

Þá er bara að demba sér í næstu greiningarkafla ritgerðarinna; næst á dagskrá auglýsingar og síðan bókakápur.

Ég rakst á þessa bók um daginn – hún er þrælskemmtileg:

The domestic ideal also has functioned to define women as naturally suited to jobs involving neatness, courtes, and personal service.

 

Hér eru síðan nokkar gamlar:

 

Sjá meira hér.

 

Kyngervi og letur

Ég hef verið mikið að pæla í þessu….er hægt að tala um kyngervi mismunandi leturgerða (e. gendered typograhpy)? T.d. eru leturgerðir sem teljast ,kvenlegri‘ þ.e. standa fyrir kvenlæg sjónarmið  (sem eru skilgreind út frá fagurfræði og menningu samfélagsins). Eru þessar leturgerðir notaðar í vissu samhengi og þá hvenig? Og hvenær eiga þessi ,kvenlegu‘ boðskipti ekki upp á pallborðið?

Ég geri mér fullkomnlega grein fyrir að hér er ekkert algild – og fullt af frávikum, en hér er ég aðallega að skoða endurtekningar og ítrekanir í sjónmenningu hversdagsins – þ.e. skoða þá þætti sjónmenningarinnar sem er viðhaldið og styrkt í nafni ,hefða‘ og ,samfélagslegra gilda‘ – hver hagnast  á því?

Með því rannsaka hina hversdagslegustu þætti menningar þarf oft að setja hlutina á haus (sem er meira svona vinnuaðferðir gagnrýnandans) til að afhjúpa það sem e.t.v. telst ,eðlilegt‘ eða ,óbreytanlegt‘ í samfélagsgerðinni (hönnuðurinn þarf að gæta sína að teygja sig ekki út fyrir afmarkað svæði skilgreint af hinni samfélagslegu sátt – þá eiga skilaboðin á hættu að ná ekki til viðtakenda sinna).

Tökum sem dæmi leturgerðir sem líta út fyrr að vera handskrifaðar (náttúrulegri en hið prentaða  letur?) þær tákna yfirleitt hin kvenlægari samfélagslegu sjónarmið – af hverju?  Þetta eru leturgerðir sem sjást aðallega í tengslum við fjölskyldutengdar athafnir (t.d. boðskort, barnauppeldi, o.s.frv.), náttúrtengda umræði, fegurðariðnaðinn, og í tengslum við tilfinningar (ást, gleði, frið)…o.s.frv.

Dæmi, íslensk lógó:

Kröftugar leturgerðir og einfaldar (lausar við skraut) eru þannig taldar lýsa karllægum eiginleikum (samfélagslega skilgreindum) eins og traust, eitthvað rökrétt og trúverðugt. Þessar leturgerðir eru einkennandi á opinberum vettvangi, í fjölmiðlum, á netinu, hjá stofnunum.

Dæmi, íslensk lógó:

                        

Skynjun okkar og tengingar við þau tákn sem birast okkur t.d. í merkjum stofnanna og fyrirtækja senda okkur skilaboð – það sem er athyglisvert hér er af hverju myndast þessi samfélagslega sátt um að það sem er náttúrulegra (handskrifað, kvenlegra) sé ekki jafn trúverðugt og hin karllægu skilaboð?

Leturgerðir þjóna því mikilvægu hlutverki í sjónmenningu okkar.

Einföld æfing, myndum við stunda viðskipti við þennan banka? Af hverju ekki?

Textinn skoðaður innan sem utan

jæja

Nú fer ég að sjá fyrir endann á ritgerðinni … fræðilegi hlutinn er tilbúinn og þá eru eftir þema stúdíur úr sjónmenningu hversdagsins. Skemmtilegt?

Jáhá!

Ákkúrat núna er ég að leggja lokahönd á kaflann sem snýr að leturgerðum eða týpógrafíum. Það er svo ótrúlegt hvernig hægt er að breyta (og hafa þannig áhrif á) skynjun okkar  á inntaki orða með framsetningu þeirra, litum, lögun og uppsetningu.

Sem grafískur hönnuður er ég meðvituð um þetta – sem bókmenntafræðingur er ég hissa á hversu léttvægt eða jafnvel ekkert er tekið mið af þessum atriðum við greiningu á textum. Hin sjónrænu skilaboð textans eru marglaga og svo langt frá því að vera einföld.

Þannig skiptir máli sú fagurfræði sem letur og texti standa fyrir – hver eru skilaboðin og að hverjum beinast þau, hvaða menningarlegu gildi felast í skilaboðunum …. hvaða staðalmyndir eru styrktar, hvað er sýnt og hvað er falið?

Hérna sameinast skýrast þau tvö svið sem ég hef verið að grúska í, grafísk hönnun og bókmenntafræði – textinn skoðaður innan frá og utan.

Bókin Design Writing Research eftir Ellen Lupton (sem er goðið mitt 😉 og Abbott Miller hefur verið nokkurs konar biblía í grúskinu mínu. Þetta er ein af þessum bókum sem er alltaf hægt að grípa í og lesa. Það er líka sjaldgæft að finna rit sem hefur að geyma fræðilega umræðu um grafíska hönnun án þess að fjarlægast efnislega (praktíska) þætti fagsins. Ég vitnaði töluvert í verkið fyrir um 12 árum síðan þegar ég skrifaði b.a. ritgerðina mína í bókmenntafræði um bókakápur og myndmál texta. Og viti menn! nú er hún aftur komin á heimildaskrána í mastersritgerðinni.

Það gladdi mitt litla hönnunarhjarta að sjá að bókin er fáanleg núna á bókasafni LHÍ – ég mæli með þessari:

og hér eru líka nokkrar perlur:

 

MissRepresentation

Ég ætlaði rétt að kíkja á þessa heimildarmynd… en endaði á því að horfa á hana upp til agna.

Skylduáhorf og vekur mann til umhugsunar.

Góðar stundir.

Uppeldi í sjónmenningu hversdagsins

Ég vona að Halldóra Ingimarsdóttir afsaki það að ég fái lánaða þessa mynd, en samsetningin hér er hennar.

Nú er ég nokkuð langt komin með ritgerðina mína sem fjallar um sjónmenningu í íslensku hversdagslífi, og er því e.t.v extra vel á verði gagnvart þeim myndbirtingum sem blasa við okkur dagsdaglega í umhverfinu (og já, ef einhver spyr þá er hægt að „greina“ jógúrtdollur, veggspjöld og umferðarskilti“ no prob 😉

Og þetta er einmitt útkoman (sjá mynd) – en finnst okkur þetta í lagi ?

Flestir sem spyrja um hvað ritgerðin fjallar hvá við og segja “ ég horfi aldrei á þessar auglýsingar – ég fletti varla þessum dagblöðum“ og telja þar með að sjónmenningin – ruslið í afþreyingarmenningunni – skipti í raun ekki máli, hafi ekki áhrif.

Sem móðir þriggja barna hef ég áhyggjur af þeirri sjónmenningu sem borin er á borð fyrir þau og gegnsýrir samfélag okkar – og hér er ég bara að tala um íslenska miðla en ekki t.d. það sem er hægt að nálgast á netinu.

Ég er s.s. „leiðinlega“ mamman sem sannfærir táningsdóttur sína um það að fegurðin komi innan frá, að hún þurfi ekki að fela góðar einkunnir sínar til að ganga í augun á jafnöldrum sínum og að þröng mínípils og háir pinnahælar geri hana ekki að betri kynveru – sjálfstraust og góð sjálfsmynd er það sem við foreldrarnir höfum valið að innræta börnum okkar.

Strákarnir mínir tveir hjala lög eftir Steinda, vilja heyra í Audda Blö á eff emm  og bíða spenntir að dýrðardrengir á borð við Sveppa og Co. fari núa að freta einhverju skemmtilegu í loftið.  Og þeir horfa á Gillz með aðdáunarglampa í augum – og áhrifin breiðast hratt út og eru sterk…. í dag þurfti ég t.d. að útskýra fyrir 10 ára syni mínum að það að nauðga væri hræðilegt ofbeldisverk og það að hóta að einhver ætti skilið að vera nauðgað væri já – bannað. Í ljósi fjölmiðlaumræðu sl. viku varðandi ákærur á hendur Agli Einarssyni er s.s. orðið „nauðgun“ orðið að einhvers konar tískuorði hjá ungum drengjum, þetta er e-ð „rosalegt“ þetta sem Gillz er sakaður um“ og þeir að nota þetta orð sem hvert annað slogan..“já, sæll“ er skipt út fyrir „á ég að nauðga þér“.

Þeir vita ekki betur, vita sumir ekki hvað það þýðir – þeir eru 10 ára.

Ég vil ala upp börnin mín í samfélagi þar sem ólíkar skoðanir fá rými, þar sem tekið er tillit til þess að við höfum öll eitthvað fram að færa – að við búum öll yfir orku sem býr innra með okkur og eigum að leitast eftir jafnvægi (já ég er týpískt vog).

Þannig samfélag birtir ekki konur í stöðluðum hlutverkum sem annaðhvort „móðir“ eða „dræsa“ og sendir þau skilaboð til stúlkna að annað „sé ekki í boði“ fyrir þær (nema þá að vera óeðlilegt frávik)…. og skilaboð til drengjanna eru engu skárri – „hlæðu á kostnað annarra, gerðu lítið úr öðrum – vertu búllí þá vegnar þér vel“

Við berum öll ábyrgð, og getum breytt hlutum.

Best er að byrja á að horfa á gagnrýninn hátt á hversdagslíf okkar og fræða börnin um það sem fyrir augum ber.

 

Ímynd hins fullkomna, lýtalausa einstaklings.

Ég er að blaða í gegnum klassíkina: The Beauty Myth eftir Naomi Woolf.

Það er ótrúlegt hvað þetta verk á enn vel við – rúmlega 20 árum eftir að það kom fyrst út.

„Women’s culture is an adulterated, inhibited medium. How do the values of the West, which hates censorship and believes in a free exchange of ideas, fit in here?“

Ef litið er til samtímans hefur áherslan á hina fullkomnu líkama (samkvæmt skilgreiningu  samfélagsins) orðin allsráðandi, fegrunaraðgerðir – og ráð eru kynnt sem náttúruleg lausn í átt að „betri líkama og líðan“ .

Þannig verða do’s & don’t listar tímaritanna að trúarboðskap nútímans og skilaboðin eru skýr – þeir sem iðka ekki trúna fá ekki aðgang að hinni himnesku ímynd fullkomnunar.

%d bloggurum líkar þetta: