Ég vaknaði í morgun, líkt og aðra virka morgna, við morgunútvarp rásar2. Í gegnum svefninn heyrði ég að verið var að ræða hið ,eðlilega samband‘ milli ungabarns og móður. Pistlahöfundur var óðamála og vildi koma á framfæri þeirri staðreynd að margir af þeim karlmönnum sem nýttu réttindi til feðraorlofs væru í raun að eyða tímanum í eitthvað allt annað, byggja bílskúr (?) eða fara á veiðar, þeir væru að misnota kerfið – enda væri það fáránlegt að halda að ungabörn þyrftu að tengjast feðrum sínum fyrstu árin – það væri mikilvægara að þau tengsl yrðu á unglingsárum – það væri ,eðlilegast‘ – náttúrulegast!
Áhugavert er að skoða það menningarlega forræði sem fjölmiðlar og auglýsingar hafa og hvernig þessir þættir móta hið siðferðislega rétta í samfélaginu – normið. Það er því hollt að staldra við og gagnrýna þá ímynd sem ítrekað er dregin upp af fjölskyldueiningunni og hlutverki kynjanna innan hennar, en ímyndin um fjölskylduna er ein af grunnstoðum nútímasamfélagsins. Ríkjandi orðræða auglýsinganna, sem byggir á hefðum og gildum feðraveldisins, heldur þannig á lofti því sem telst til eftirbreytni.
Hér að ofan er mynd úr auglýsingaherferð fyrir líftryggingar. Myndin sýnir teikningu af karli og konu sem halda á ungabarni (klætt í blá föt). Á myndinni eru örvar sem benda annars vegar á föðurinn og hins vegar á móðurina. Örvarnar eru samhverfar og hjá þeim standa orð sem eiga að lýsa því hvernig ábyrgt foreldri er.
Hér eru nokkur dæmi úr rituðu máli auglýsingarinnar:
- Móðirin: Rækta líkama og sál – Faðirinn: Afla sér þekkingar, (örvar á höfuð).
- Móðirin: Halda góðri rútínu – Faðirinn: Axla ábyrgð, (örvar á herðar).
- Móðirin: Sýna tillitssemi – Faðirinn: Deila verkefnum á heimilinu, (örvar á hendur).
- Móðirin: Hvílast vel – Faðirinn: Stappa stálinu í aðra þegar á móti blæs, (örvar á fætur).
- Móðirin: Vera jákvæð – Faðirinn: Sýna tómstundum annarra í fjölskyldunni áhuga, (örvar á fætur).
Hlutverk hins ábyrga föðurs, samkvæmt auglýsingunni hér, styrkir og viðheldur ímynd karlmennskunnar. Orðin sem standa við líkamshluta föðursins eru framsækin, nánast hernaðarleg og þar er að finna orð eins og: skipulag, að deila verkefnum, stappa stálinu í, að hvetja áfram o.s.frv. Ef skoðuð eru þau orð sem standa við líkamshluta móðurinnar sést hvernig þau fela í sér orðræðu um náttúruna eins og t.d. að rækta, að búa í haginn og styrkja þannig ímynd móðurinnar við umönnun og ,hreiðurgerð‘. Þau orð sem lýsa móðurinni vísa einnig í líkama hennar og tilfinningar, þannig virðast orð eins og: að hvílast, vera jákvæð, sýna tillitssemi, ýta undir þær hugmyndir að kona sé undirgefnari og viðkvæmari en karlmaður.
Það er athyglisvert að þrátt fyrir að reynt sé að gæta jafnréttis í myndmálinu (þau halda bæði á barninu og horfa bæði brosandi fram í lesandann) byggir uppstilling myndefnis á rótgrónum kynjaímyndum. Karlmaðurinn er stærri, það er hann sem heldur á barninu en konan styður við það. Hér er því undirstrikað það sem kemur fram í texta auglýsingarinnar: ímynd móðurinnar sem viðkvæm tilfinningavera og föðursins sem verndara og geranda í foreldrahlutverkinu.
Heyrði einmitt sama pistil. Fannst hann mjög áhugaverður. Þetta er gott dæmi sem þú dregur þarna fram um birtingu kvenna í auglýsingum. Hef einmitt tekið eftir þessu á mun fleiri stöðum. Það var einmitt ágætur þáttur í sjónvarpinu fyrir nokkru síðan sem benti á þessa hluti, hvernig konur eru birtar eins og þær geti ekki staðið sjálfar, skakkar og viðkvæmar á meðan karlarnir standa teinréttir og tilbúnir í slaginn.
Mér fannst pínulítið til í því sem Gísli sagði í morgun, því ég hef einmitt líka tekið eftir bílskúrssmiðunum, golfurunum og laxveiðimönnunum í fæðingarorlofi. Ég veit að margir karlar nota fæðingarorlofið sitt sem framlengingu á fæðingarorlofi konunnar, en það eru líka margir, amk í kringum mig, sem nota þetta til að framlengja sumarfrí, jólafrí og golffrí á meðan konan er líka í fæðingarorlofi. Ólíkt Gísla vil ég samt ekki afnema feðraorlofið því það er mjög mikilvægur þáttur í því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Hinsvegar finnst mér að við ættum að afnema lengri jólafrí, sumarfrí og golffrí sem eru dulbúin sem fæðingarorlof.
Ég er svolítið róttækari – finnst að það eigi bara að vera sameiginlegur „pottur“ sem heitir x mánuðir í foreldraorlof og síðan getur fólk púslað þessu saman eins og hentar best þeirra fjölskyldumynstri, það eru nefnilega alveg til mæður sem kjósa að taka styttri tíma frá vinnu og síðan eru til feður sem kjósa að vera frekar heimavinnandi, síðan eru einstæðir foreldrar, samkynhneigðir….allskonar fjölskyldur s.s. Fjölskyldur eru jafn ólíkar og þjóðfélagið sem við búum í (það birtist þó ekki í sjónmenningunni!!) – en samfélagið er ekki beint að styðja þessa fjölbreytni. Ég hef bara lengi (eða í þau c.a. 14 ár sem ég hef verið í móðurhlutverkinu) velt fyrir mér þessum ,náttúrulegu hæfileikum‘ mínumsem samfélagið segir að ég hafi…
Ég held að meðan fæðingarorlofsstyrkur tekur mið að tekjum þeirra sem taka orlofið, þá verði að hafa sérstakt feðraorlof. Hvort orlofið er tekið í beinu framhaldi af jólafríi, sumarfríi eða annað finnst mér ekki skipta máli, svo framarlega sem faðirinn er heima að njóta þess að sjá barnið sitt vaxa og dafna og sinna því.
Hvað varðar alhæfing útvarpsmannsins, þá er það þvílík fásinna að annað eins hef ég ekki heyrt! Ég er sannfærð um að samband sonar míns og föður hans hefði ekki orðið svona náið nema einmitt vegna þess að faðirinn sá um umönnunina og uppeldið fyrsta árið. Við skildum þegar drengurinn var tveggja ára og því voru samverustundirnar ekki eins miklar eftir það. Böndin sem mynduðust þarna á fyrsta árinu hafa þó haldist gegnum árin.
Maðurinn minn tók sex mánaða fæðingarorlof en ég tók þrjá – þetta hentaði okkur betur og gerði það að verkum að ég gat tekið einn og einn kúrs til að ná lágmarkseiningafjölda til að fá námslán og við gátum skipulagt okkur þannig að barnið þurfti ekki í dagvistun allt fyrsta árið.
Ég get ekki talið öll skiptin sem ég fékk að heyra hvað hann væri „duglegur“ og „góður pabbi“ fyrir að vera heima með barnið eða fyrir að vinna lægra starfshlutfall svo ég kæmist í tíma 1-2svar í viku. Mér var ekki hrósað sérlega mikið fyrir að bruna heim úr miðjum tíma með brjóstin að springa úr mjólk til þess að gefa barninu svo við gætum fengið þetta ár og eytt einhverju af því öll þrjú saman. Það var líka allt í lagi en skekkjan var áberandi.
Ég fékk ótrúleg komment þegar ég var að byrja að vinna eftir fæðingarorlof fyrir 8 árum. Nb. maðurinn minn tók við að mér og tók fjögurra mánaða fæðingarorlof.
Ég var spurð hvað yrði nú um barnið og hvort ég ætlaði að fara í hlutastarf. Það sem mér fannst merkilegt var að ég fékk svona spurningar ekkert síður frá konum en körlum.
Við þurfum öll að taka aðeins til í hausnum á okkur ef eitthvað á að breytast.
Mér finnst leiðilnegt að sjá sleggjudóma eins og þá sem Gíslil er með um karla í fæðingarorlofi. Hann virðist ekki byggja á neinum haldbærum gögnum heldur einhvers konar tilfinningu. Það eru áreiðanlega karlar sem misnota fæðingarorlofið sitt og byggja bílskúra eða fara í lax og það er þá eitthvað sem ætti að breytast, fremur en að réttur karla verði lagður af. Sem betur fer held ég að það sé ekki á dagskránni.
Ég fékk þetta komment frá einum vinnufélaga þegar ég kom úr fæðingarorlofi og við vorum að ræða um stöðu kvenna á vinnumarkaði: „Það er bara einn galli við ykkur konurnar; þið alið börnin“.
Ég fékk svo líka mjög mörg hneysklunarkomment á það að ég ætlaði að vera í fullu starfi, klukkutíma frá heimilinu að loknu 9 mánaða fæðingarorlofi. Það var miklu oftar frá ungum konum heldur en til dæmis karlkyns vinnufélögum mínum. Það er nú ekki lengra síðan en árið 2010!
Mér fannst mjög erfitt að fara frá barninu svona ungu og það bætti ekki úr skák að fá samviskubit í hvert skipti sem þetta bar á góma í samtölum. Samfélagið sem við búum í er bara ekki komið lengra en þetta í jafnrétti kynjanna.