Líkt og aðrar neysluvörur byggja umbúðir og hönnun bóka, í flestum tilvikum, á þeim markhóp sem verið er að höfða til og verða bókmenntaflokkarnir sífellt fjölbreyttari og fleiri eftir því sem nýir mögulegir neytendahópar myndast á markaði.
Skvísubókmenntir (e. chick lit) og lífstílsbækur fyrir unga herramenn eru dæmi um þær bókmenntategundir sem hafa fest sig í sessi í íslenskri bókaútgáfu. Þessar bókmenntategundir búa yfir táknkerfi myndmáls sem er lýsandi fyrir innihaldið og móta ímynd bókmenntategundarinnar. Myndmálið á kápum íslenskra skvísubókmennta byggir t.d. á erlendum fyrirmyndum sem markast af tölvuteiknuðum myndum, yfirleitt af kvenmanni eða hlutum sem eiga að vera lýsandi fyrir konur (skór, snyrtivörur, innkaupapokar, hanastél o.þ.h.). Það er athyglisvert að sjá hvernig þetta myndmál skvísubókmenntanna hefur færst yfir á aðrar neysluvörur eins og t.d. á umbúðir mjólkurvara.
Það ætti ekki að koma á óvart hvernig íslenskar bókakápur halda á lofti hinum ýmsu staðalmyndum sem eru ríkjandi í sjónmenningu hversdagsins, þær sömu og birtast okkur t.d. í auglýsingum og dagblöðum. Lífstílsbókmenntir geta þannig styrkt ákveðnar staðalmyndir samfélagsins en einnig geta þær afhjúpað þessar birtingarmyndir eins og bókin Hola, lovers: hvernig á að þóknast karlmönnum og vera betri en aðrar konur gerir á myndrænan og beinskeittan hátt.
góða stundir